Monday, February 2, 2009

Fæðingarsagan

Já síðast var ég að röfla um biðina eftir barninu en hún reyndist nú styttri en ég átti von á. Cirka fjórum tímum eftir að færslan var skráð var þessi litla prinsessa fædd. Ég hafði nú fundið einhverja samdrætti um kvöldið en það var ég líka búin að vera að finna í nokkurn tíma og var hætt að gera mér vonir um að það væru einhver merki um að styttast færi í fæðingu. Fór bara upp í rúm að sofa um hálf tólf leytið en um tólf leytið fannst mér þessir samdrættir vera orðnir óvenju miklir og fór niður í eldhús að fá mér einn kornflexdisk og fór eitthvað að brasa og ganga frá einhverju dóti. Um hálfeitt fór ég upp og ýtti í Palla og sagðist halda að þetta væri að fara í gang. Hann ætlaði nú ekki alveg að trúa mér og var ekkert að drífa sig á fætur. Ég var víst búin að kalla soldið úlfur úlfur, alltaf að tala um einhverja samdrætti sem urðu svo ekki að neinu. Ég fór bara að klæða mig og klára að taka til í töskuna og svo þegar ég var farin að beygja mig aðeins saman við samdrættina þá trúði maðurinn mér loksins og dreif sig á fætur. Við hringdum í Fanney sem kom með Söndru litlu 3 mánaða með sér. Þær voru komnar um hálf tvö og þá drifum við okkur af stað. Við vorum komin inná herbergi á fæðingadeildinni um 10 mínútur yfir 2 og rúmum hálftíma síðar, eða 02:47 var stúlkan fædd. Þetta gekk eins og í sögu. Palli dreif sig svo heim um hálf sjö til að hleypa Fanney heim að hugsa um hin börnin sín tvö og hleypa manninum sínum í vinnuna. Palli kom svo með börnin að sækja okkur og vorum við komin heim um hádegisleitið. 

Þetta hefði nú eiginlega ekki getað gengið betur upp allt saman og litla snúllan bara sefur og sefur og gerir þessar helstu kúnstir sem börn á hennar aldri gera. Fyrstu dagana svaf hún eiginlega aðeins of mikið og örvaði mjólkurframleiðsluna ekki nógu vel. Hún hafði því misst eitthvað aðeins of mörg grömm þegar við fórum í þriggja daga skoðun svo við fengum ekki að fara aftur heim heldur vorum bara lagðar inn og látnar vinna saman í mjólkurframleiðslunni. Framleiðslan fór á fullt þennan dag sem við vorum þarna inni og daman dafnar vel síðan þá. Bætti á sig 300 gr. á einni viku og fer svo aftur á miðvikudaginn í viktun. Spennó að sjá hvað kemur út úr því:)

En jæja nú er ég held ég farin að rövla aðeins of mikið og held að þriggja barna móðirin ætti að fara að sofa núna.

Bestu kveðjur,
knús og kossar,
Erla Rut, tre barns mama :)

Sunday, January 18, 2009

og það er beðið

já það verður að segjast að við erum aðeins farin að bíða eftir blessuðu barninu :) en ég er þó ekki sett fyrr en morgun 19. janúar samkvæmt sónar. Hélt bara að þetta kæmi örlítið fyrr eins og Freyja Sif gerði en vonandi verða þetta ekki tvær vikur fram yfir eins og með Óðinn Braga!! Veit ekki hvert Palli verður farinn þá!! Hann er ekkert skemalagður í vinnunni út af ástandinu og er því bara heima að bíða með mér :) Svo skammar hann mig á hverjum degi fyrir að vera ekki búin að fæða þetta barn en hvað get ég gert?? en þetta er nú allt í góðu gríni og tíminn líður svo sem ágætlega áfram. Svo er líka ælupest í húsinu sem Óðinn Bragi pikkaði upp í leikskólanum fyrir helgina, svo það er ágætt að klára þann pakka af áður en litla krílið mætir :)

En já að öðru leiti erum við bara hress og kát :)

Kveð að sinni
 
Hej då 
kornflex


svoana kveður dóttir mín á leikskólanum. á íslensku segir maður bless bless klukkan sex kornflex. Þetta hlýtur að ríma og hljóma jafnvel á sænsku eða hvað??

Early pearly

Thursday, January 8, 2009

Loksins kom jólasnjórinn :)

Já við vöknuðum með hvítri jörð í morgun. Óðni Braga fannst þetta náttúrulega frekar spennandi og rannsakaði fótsporin og bílsporin í snjónum á leiðinni í leikskólann. Svo stakk hann uppá því á leiðinni hvort við ættum ekki bara að hafa aðfangadag í dag fyrst væri kominn svona mikill snjór allt í einu!! jú einmitt eigum við ekki bara að endurtaka það allt saman!!! :)
Freyja Sif sat í kerrunni og var ekkert sérstaklega hrifin af að fá þessi litlu snjókorn í andlitið en það var mjög nett og létt snjókoma á leiðinni. Hún jafnaði sig nú fljótt á þessu og var alsæl að koma í leikskólann.
Ég fékk mér svo stuttan göngutúr í hverfinu og er svo að spá í að fara í heitt bað eða gera einhverjar æfingar til að koma þessu barni af stað úr bumbunni!!! ;)

Kveðjum að sinni
Erla og bumban

Monday, January 5, 2009

Gleðilegt árið öll sömul

Gleðilegt árið kæru vinir og vandamenn. Svona þeir sem ennþá nenna að kíkja hérna inn!! eitthvað lítið um blogg upp á síðkastið en nú er nýtt ár með nýjum og fögrum fyrirheitum. Vera duglegri að blogga, taka á í ræktinni, borða hollt og gott, vera góð og þolinmóð við belssuð börnin og allt þetta helsta, sjáum svo til hvað gengur eftir af þessu öllu saman!!!

Jólin hér á bæ voru ljúf og róleg. Spenningurinn stigmagnaðist hérna allan desember og náði náttúrulega hámarki á aðfangadag sem var sumum litlum mönnum langur og erfiður. Þegar svo loksins var ráðist á pakkaflóðið, eftir ljúffenga austfirska hreindýrasteik, var rifið utan af gjöfunum á mettíma svo var bara spennufall. Það er mikið álag að vera lítill ungur maður á þessum tíma árs. Þó nokkuð Legó leyndist í þessum pökkum og fóru jóladagarnir í legósmíði, át og rólegheit. 

Yfir áramótin nutum við nærveru þeirra Hörpu, Guðjóns og Úlfs Stefáns. Þá hélt átið áfram, rólegheitin og kósýheitin. Þau voru svo hugulsöm að taka með sér purusteik sem þau svo elduðu á gamlársdag fyrir okkur. Á nýjársdag var eldaður kjúklingur með kalkúnafyllingu. Við vorum ekki nógu séð að vera búin að versla kalkúninn í tæka tíð og ráfuðum svo á milli búða í leit að kalkúni á gamlársdag sem fékkst hvergi ekki einu sinni frosinn. Þá var fyllingunni bara skellt í rassinn á tveimur kjúllum og var ekki síðra þannig enda örlítið fínna og mýkra kjöt. Svo var James Bond settur á skjáinn þegar börnin voru komin í ró. Sem sagt virkilega rólegt og notalegt yfir hátíðirnar:)

Nú er bara verið að undirbúa komu bumbubúans. Bíðum eftir að henda út jólunum sem við ætlum að gera ekki seinna en á morgun þrettándann og taka svo á móti krílinu. Ég er búin að spá komu þess um helgina svo það er eins gott að það standi sig!!! Barnið er allavega skorðað og einstaka samdrættir farnir að gera vart við sig. Svo ég held það sé að verða þónokkuð tilbúið í slaginn. En þetta kemur víst allt í ljós;)

En jæja ætla að fara að sjóða grjóna!!
Knús og kossar
Erla Rut og familj

Sunday, December 14, 2008

Aðventugleði

Já einmitt tíminn líður og jólin nálgast. Við erum nú búin að gera eitt og annað okkur til dundurs. Um síðustu helgi fórum við aftur í Liseberg og mundum þá eftir skautunum. Palli gat leigt sér skauta og tóku þeir feðgar nokkra góða snúninga á svellinu. Freyju fannst ekki alveg jafn gaman að sitja í kerrunni á meðan og horfa bara á. Hún ætlaði sko út á svellið líka. Það er erfitt að vera lítill en halda að maður sé stór og geti allt eins og stóri bróðir. Sjáum til um næstu jól hvort skvísan getur fengið að spreyta sig:)
Í gær var sænskt jólahlaðborð hjá okkur. Þetta voru fjórar fjölskyldur sem hittust og lögðu allir eitthvað til á borðið. Á borðinu var sænsk jólaskinka, kjötbollur, síld og lax, glögg og ýmislegt tilheyrandi. Boðið byrjaði kl 3 og var fram eftir kvöldi. Ótrúlega ljúft og notalegt:)

Í dag svaf fjölskyldan örlítið lengur en venjulega sem var virkilega notalegt. Eftir morgunmatinn klæddum við okkur svo upp í útivistargallann og skelltum okkur í göngutúr um vatnið okkar. Göngutúrinn var tekinn í miklum rólegheitum þar sem Óðinn Bragi hafði með sér myndavélina sína, sem er gamla myndavélin okkar sem hann fékk að eiga  þegar við keyptum nýja. Það þurfti að stoppa hér og þar og smella af hinu og þessu. Svo fékk líka Freyja Sif að hreyfa sig soldið og labbaði hlut úr leiðinni og það tók nú sinn tíma og ekki alltaf farið í þá átt sem við hin ætluðum okkur. Þegar hún var svo orðin þreytt á göngunni skreið hún upp í kerruna sína og sofnaði. Mjög svo huggulegur göngutúr í yndislegu veðri. Kallt, stillt, sól og fallegt:) 
Þegar heim var komið settust þeir feðgar niður við tölvuna og skelltu myndunum inn á hana og bjuggu svo til myndasíðu fyrir drenginn. Myndirnar voru nú alveg glettilega góðar miðað við aldur og fyrri störf en þær getið þið séð á picasaweb.google.com/odinnbragi Það er linkur á hann hér til hliðar:)

Á morgun er Luciuhátíð í leikskólanum. Svo það er prógramm á morgun. Kl 3 hjá Freyju og 6 hjá Óðni Braga. Deildin hans Óðins Braga er búin að æfa söngva og atriði sem verður gaman að sjá á morgun. Freyju deild er búin að æfa einhverja söngva en ekkert skipulagt atriði þar sem þau stíga nú ekkert sérstaklega í vitið greyin;) 

Nóvemberalbúmið er komið og myndasíðuna. Einhverjum myndum úr afmæli prinsessunnar var bætt inní ágústmánuð og kannski einhverjum í sept og okt man það ekki alveg. Þið getið kíkt:)

Ég kveð nú að sinni
hafið það gott og njótið aðventunnar hún er svo skemmtileg:)

Erla Rut

Tuesday, December 2, 2008

...og viti menn..

hún lifnaði við!!! Tæknimaðurinn á heimilinu er náttúrulega ótrúlegur. Hann bjargar ekki bara mannslífum heldur vekur hann líka tölvur aftur til lífsins!!! Þetta er ekki langt og flókið ferli. Þú bara blótar helvítinu verulega færð þér svo skrúfjárn í hönd og hefst handa, grúskar aðeins á netinu kannski, blótar pínu meira og ferð svo út í búð að kaupa box utan um harða diskinn til að komast að því hvort það er tölvan eða harði diskurinn sem krassaði. Svo kemstu að því að harði diskurinn er ónýtur svo það eru smá líkur á að tölvan sé enn í lagi. Næsta skref er að panta nýjan harðan disk í elskuna sem barst á ógnarhraða í hús. Þá er að taka aftur fram skrúfjárnin og krossa fingur og vona að allt gangi upp og fari vel. Sem það gerir kannski ekki í fyrstu tilraun en þá er bara að blóta soldið meira og grúska aftur á netinu og láta sér detta eitthvað sniðugt í hug. Svo kannski þiggur maður kaffibolla frá diggum stuðningsaðila, sest svo aftur og strýkur elskunni soldið blíðlega og talar fallega við hana og allt gengur upp. Tölvan hrekkur í gang og allir eru glaðir, tæknimaðurinn kannski sérstaklega en ekki sýður stuðningsaðilinn sem situr nú og stofunni sinni og hlustar á jólalög fær sér söru og mjólk og chillar með fartölvuna í fanginu!!!
Nokkuð vel af sér vikið og fær tæknimaðurinn margfaldar þakkir fyrir frammistöðuna. Ég hefði auðvitað aldrei klórað mig fram úr þessu á þennan hátt en lagði mitt að mörkum með góðum móral og talsverðri hvatningu, smákökubakstri og alveg ágætis eldamennsku!!

Annars er heilsufarið á heimilinu að skána. Freyja fór í leikskólann í dag en hafði þá ekki farið síðan síðasta þriðjudag. Hún var hress og kát með það. Svo var síðasti tíminn í íþróttaskólanum hans Óðins Braga í dag og fengu þá foreldrar að koma og fylgjast með. Tíminn var teypaður og filmaður svo þegar tími gefst til fáið þið að sjá alveg hreint ótrúleg tilþrif;)

en jæja ætla að láta þetta duga í bili
kveð með kurt og bí 
og segi æ lov jú

Early Pearly

Wednesday, November 26, 2008

Fartalvan dó!!!

Já nú sit ég inn á kontor og rita hér nokkur orð. Ég sem hélt að Eplatölvur væru ódauðlegar en viti menn, skvísan bara gaf upp öndina!!! Ekki skemmtilegt að þurfa að sitja hér í þessu annars ágæta herbergi en stofan, kjallarinn eða eldhúsið er nú huggulegra með sjónvarpið eða eitthvað annað í gangi í leiðinni!!! En við höfum allavega tölvu, (hún er bara ekki færanleg), svo maður ætti nú kannski ekki að vera að kvarta neitt!!!

Annars er allt ágætt í fréttum af okkur fyrir utan heilsufarið á liðinu. Um leið og Óðinn Bragi hristi af sér kvefið þá tókum við hin þrjú við. Palli og Freyja voru bæði lasin heima í dag en Óðinn Bragi fór í leikskólann hinn hressasti enda búinn að taka sitt út. Freyja er með 39 gráður, frekar örg og pirruð á þessu ástandi. Berst um í hósta og með stöðugt rennsli úr nefinu. Ég sjálf átti minn versta dag í gær, mæddist ægilega við að fara á milli hæða með hellur fyrir eyrunum og frekar drusluleg eitthvað en er á batavegi. Mikið hressari í dag svo það er allt á uppleið. Vonum bara að Freyja verði ekki lengi að hrista þetta af sér því heimilisfaðirinn fær langa helgi núna um hlegina, frí föstudag og mánudag, og svo eru bara tvær næturvaktir í næstu viku. Við ætluðum að gera eitthvað kósý og reyna að koma ýmsu í verk, hengja upp jólaljósin, taka jólakortamynd, fara á skauta, út að borða o.fl o.fl. svo vonandi verða allir orðnir hressir fyrir helgi!!!

Jæja jæja nú ætla ég að hætta þessu kvarti og fara að hugga mig í sófanum með þrist og djúpan. Eigum enn byrgðar frá Íslandi síðan um daginn:)

Bestu kveðjur
Erla Rut og lasarusarnir